Þann 29. júlí 2015 kom út nýjasta útgáfa af Windows stýrikerfinu sem kallast Windows 10.

Í þessari útgáfu má finna margar spennandi nýjungar sem áhugavert er að skoða. Helsta “nýjungin” er reyndar gamall vinur okkar, Start hnappurinn, sem kemur aftur eftir að hafa horfið úr Windows 8. Windows 10 er einnig fullt af öðrum nýjum og spennandi hlutum, og mun hraðvirkara en síðustu stýrikerfi. Óhætt er að segja að Microsoft hafi vandað vel til verka í þessari útgáfu eftir að hafa mistekist að heilla notendur með Windows 8 og 8.1 en algjör viðsnúningur var á viðhorfi Microsoft með þróun á þessari útgáfu þar sem þeir leyfðu hverjum sem vildi að taka þátt í þróuninni og segja sitt álit. Milljónir manna út um allan heim tóku þessu boði Microsoft og stýrikerfið hefur verið að taka á sig endanlega mynd síðustu mánuði. Þessi þróun hættir ekki þó búið sé að gefa stýrikerfið út heldur mun Windows 10 halda áfram að þróast og breytast með tímanum. Sumir segja jafnvel að þessi útgáfa verði sú síðasta sem gefin verði formlega út með hefðbundnum hætti, aðeins muni koma út uppfærslur á kerfið en ekki nýjar útgáfur.

Vegna þess hve illa tókst til að selja fólki Windows 8 og 8.1 þá ætlar Microsoft að gefa Windows 10 frítt til allra þeirra sem hafa svokallað “OEM” leyfi fyrir Windows 7/8/8.1 en það eru öll leyfi sem fylgja með á tölvum þegar þær eru keyptar. Fyrirtæki sem eru með samning við Microsoft og svokölluð “Volume License” munu ekki fá fría uppfærslu sjálfkrafa heldur verða þau að sækja hana inn á sína síðu hjá Microsoft og setja það upp á hefðbundinn hátt. Þær tölvur sem geta uppfært sjálfkrafa yfir netið þurfa að hafa annað hvort Windows 7 eða Windows 8.1 uppfært að fullu. Ef þú færð lítið Windows merki neðst hægra megin á skjánum (hjá klukkunni) þá getur þú uppfært tölvuna þína frítt fram til 29. júlí 2016.

Með Windows 10 sameinar Microsoft snertiskjáumhverfið sem þeir bjuggu til í Windows 8 (Modern UI/Metro UI) annars vegar og gamla desktop umhverfið hinsvegar og einfaldar alla notkun stýrikerfisins til muna fyrir öll tæki. Ýmsar spennandi nýjungar er einnig að finna í Windows 10 s.s. Cortana talgerfill sem hjálpar við leit og aðstoð, nýr vafri sem kallast Edge og er hannaður fyrir snertiskjái, ýmis öpp af öllum tegundum, Hello öryggiskerfi ofl. ofl.

Óhætt er því að mæla með því að uppfæra allar nýlegar tölvur í Windows 10 sem ekki keyra mikilvægan viðskiptahugbúnað en ef svo er er best að kanna fyrst hvort hugbúnaðurinn styðji Windows 10 áður en uppfært er.

Ef þig vantar aðstoð eða ráðgjöf varðandi uppfærslu á Windows 10 geturðu leitað til tæknimanna TRS í síma 480-3300 eða á hjalp@trs.is.

Hér er myndband sem kynnir vel helstu nýjugarnar á notendaviðmóti í Windows 10: